Það sem ég taldi saklausa sólarhringsælupest var síðan ekkert svo saklaus og mætti frekar líkja við úthreinsunarferð til Póllands með Jónínu Ben!
Eftir fjóra daga af stanslausum klósettferðum taldi ég nóg komið og fékk lyf í dag sem stöðva slíkan verknað, það virðist virka ágætlega og ég hef haldið mat í maga í fyrsta skipti síðan á sunnudaginn var. Ég er hins vegar afskaplega orkulítil og ekkert að baða öll ljós íbúðarinnar eins og ofurvinkona mín hún Lára. Ég vona bara að ég nái að baða sjálfa mig fyrir jólin! En að öllu gamni slepptu þá vona ég að þessar tvær undanfarnar úthreinsunarvikur (fyrst kinnholuútskolið og síðan já upp og niðurskolið) hafi skolað öllum pestum og bakteríum út það sem af er skólaárinu.
Ég missti meira að segja af hrekkjaviku í vinnunni (hugmynd fengin úr Norðlingaskóla) en mér skilst að þar hafi ýmsir hrekkir verið framkvæmdir, bílar vafnir inn í plastumbúðir, pipar settur í kaffivélina, salt í smjörið, stofum umturnað, tölvur teipaðar, auglýsingar inn á barnalandi o.s.frv.
Og ég sem hafði planað einn hrekk...
Á morgun vona ég að ég geti borðað eitthvað almennilegt og nái að safna upp tapaðri orku, síðan held ég að ég verði að fá mér eitthvað megaboozt til að byggja upp ónæmiskerfið eftir þetta allt saman!
Vonum að þetta verði síðasta sjúkrabloggið mitt, á árinu í það minnsta:)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli