mánudagur, október 11, 2004


Adam var ekki lengi í Paradís.........

Sælan er búin og la vita normalimente tekið við, sem er skólinn, tungumálanámskeið, ræktin, heimilisstörfin og eldamennskan. Engar búðir, ekkert út að borða. Mamma og amma fóru snemma í morgun út flugvöll og það var ótrúlega gaman að hafa þær og við náðum að afreka þvílíkt mikið á einungis 5 heilum dögum. Á laugardaginn skelltum við okkur til Mónacó (annað skipti hjá mér reyndar) og fórum í lítilli lest um alla borgina, fórum að sjálfsögðu inn í Monte Carlo, gengum um fallegan garð, skoðuðum mollið sem var eins og höll með aðeins of dýrum vörum fyrir mína buddu og sátum við höfnina og sötruðum rauðvín eins og sannir Frakkar. Annars er ég búin að fá þvílíkt af peningum og gjöfum. Eiginlega bara búin að endurnýja hluta af fataskápnum með nýjum buxum, 4 bolum, peysu, skóm, tveimur pilsum, sokkabuxum, nælum og nærum. Enda hatar Piccolinan ekki búðirnar, nú verður hins vegar sagt basta og tekin pása að minnsta kosti þar til Andri kemur (sem er bara eftir tvær vikur húrra húrra húrraaaaaaaaa).

Ég komst hins vegar að ýmsu um hana ömmu mína í þessari ferð. Hún kallar sko ekki hvað sem er ömmu sína! (hressandi brandari). Amma mín hrýtur eins versti búrhvalur, hún er með húmor eins og unglamb og reytir af sér brandarana án þess jafnvel að taka eftir því, til að mynda spurði hún hvort pabbi hennar Hrafnhildar hefði verið með kalli þegar ég sagði að hann hefði ekki verið með neinni konu síðan hann og mamma hennar skildu. Amma náði líka að afreka eitt sem ég held bara fyrir mig og mömmu en það var mjög fyndið og kláraði næstum því að kaupa allar jólagjafirnar á methraða (reyndar með góðri aðstoð frá aðstoðarmanneskjunni, mér). Það er sko greinilega ekki bara afi minn sem er í feiknaformi því hún amma blés ekki úr nös, þrammandi búð úr búð með níðþungan bakpokann fullan af gjöfum. Ég veit sem sagt núna hvaðan ég hef þetta endalausa úthald í búðunum, það er frá henni ömmu, hún mátaði hverja flíkina á fætur annarri ásamt því að finna fleiri föt á mig og mömmu. Síðan talaði hún bara íslensku við alla enda algjör óþarfi að gera annað þar sem allir töluðu ítölsku við hana. Já hún er kjarnakona hún amma mín og hinn skemmtilegasti ferðafélagi að ógleymdri henni móður minni sem er náttúrulega bara eins og stóra systir mín og alltaf jafn skemmtileg og góð. Ég held að það geti nú ekki allir þrír ættliðir skemmt sér eins vel og við gerðum á þessum fimm dögum. Takk fyrir mig elsku mamma og amma mín:)

Nú tekur við niðurtalning í næsta gest sem er enginn annar en uppáhalds strákurinn minn hann Andri Fannar en það eru bara 14 dagar til stefnu. Næsti gestur þar á eftir er síðan engin önnur en hin þýska Margthrute Schneider en hún ætlar að mæta á Via Bianchetti þann 18. nóvember. Ég og Krunka erum síðan að hugsa um að kíkja á hana til Berlín um miðjan desember.

Hafið það nú gott í skammdeginum á Klakanum, heyrði það í dag að hitastigið hérna um jólin er ca 15°, ekki í mínus heldur plús. Ég mun því senda vetraflíkurnar heim með Andra!

Er að hlusta á gamla góða lagið Barbie girl, rifjar upp góðar minningar úr bernsku minni.

Knús
Belinda

Engin ummæli: