Ég er búin að vera að skreppa og taka við símtölum og hringja símtöl í allan dag...
Þegar ég vaknaði í morgun klukkan átta leið mér eins og ég hefði verið að taka þátt í boxbardaga í gærkvöldi, svo mikill var sársaukinn í gómnum. Það var því ekkert annað í stöðunni en að bryðja verkjatöflur og leggja sig til ellefu! Skil stundum ekki af hverju maður er að reyna að vakna svona snemma og snúsa í 2 tíma kannski...
Eftir það fór ég með maka mínum og ritgerðarpartner upp á hina einu sönnu Þjóðarbókhlöðu og við rifjuðum upp þegar við mættum þarna á menntaskólaárunum fyrir átta á morgnana og biðum óþreyjufull fyrir utan eftir að járnhliðið rúllaði upp og þá tók maður kollhnísinn og henti sér undir og reyndi að vera sem fyrstur upp til að ná 4 manna borði enda engin stemning að læra nema vera með alla félagana á sama borði!
Í dag vorum við hins vegar ekki í þeim pælingum að fara að læra þarna heldur einungis að ná okkur í góðar greinar, heimspeki og ástargreinar...enda vorum við guðslifandi fegin að þurfa ekki lengur að læra þarna, guð minn góður hvað þetta er súr og morkinn staður (sorry þig sem lærið þarna) með ömurlegu óhjálpfúsu starfsfólki sem nennir ekki að hreyfa á sér rassgatið og kann ekki að brosa! Þá er nú mun betri stemning hérna í Kennó þar sem allir eru að vilja gerðir til að hjálpa manni og hlaupa til handa og fóta ef það er eitthvað sem bjátar á. Mér leið líka hálfpartinn eins og þetta væri einhver kjötmarkaður...hver er sætastur í prófalestrinum? (sorry enn og aftur þið sem ég þekki og eruð að læra þarna) en þetta var mín upplifun:)
Ég segi það nú ekki að ég sé alltaf að læra á fullu hérna í Kennó enda hafði doktor á orði að ég væri alltaf að skreppa eitthvað...endalaust ná í þetta og sækja hitt og hann látinn bíða fyrir utan en ég hugsa nú alltaf bara með mér að hann er með eitthvað bitastætt að lesa í bílnum og sekkur sér í það;) Ekki satt þið sem þekkið hann...hann er nú ekkert að stressa sig á smá bið!
Ritgerðin er hins vegar komin vel á veg.... í kollinum á mér og nú er bara að þrusa henni á blað.
Það var ekki fleira...
Linda
Engin ummæli:
Skrifa ummæli