fimmtudagur, mars 19, 2009


Í gær fórum við í fyrsta foreldraviðtalið...

eins og gefur að skilja vorum við spennt að heyra hvernig dóttirin hegðar sér á leikskólanum því það fer nú ekkert endilega alltaf saman hvernig þau hegða sé heima eða annars staðar. Og eins og hún er nú lík Andra í útliti má segja að ég tryggi mér eignarétt á henni í fasi og hegðun;) Eða allaveganna að einhverju leyti...reyndar alls ekki öllu en nógu miklu til að ég sé örugglega viss um að eiga hana haha!

Ágústa Rut er mjög dugleg að borða á leikskólanum og borðar oft manna mest (þetta hefur hún reyndar ekki frá móður sinni því meiri gikk sem barn er erfitt að finna. Hún er samt óttaleg mús og stundum með lítið hjarta (minnir óneitanlega á móður sína) og það þarf stundum að fara að henni á ákveðinn hátt þannig að henni sárni ekki:) Maður kannast við þetta!

Hins vegar hefur hún verið að færa sig upp á skaftið undanfarið og er farin að láta í sér heyra þegar henni misbýður eitthvað og segir þá kannski hátt og skýrt: "NEI EKKI TAKA ÞETTA". Hún er vön að gera þetta hérna heima þannig að það kom okkur ekkert sérstaklega á óvart. Síðan getur hún verið ansi þrá ef hún er búin að bíta eitthvað í sig, eins og t.d. að hún vilji alls ekki borða eitthvað. Hún er mjög dugleg að leika sér og þá sérstaklega í heimilisleik sem kemur okkur ekki á óvart enda er hún alltaf eldandi hérna heima og fylgist með matreiðsluþáttum í sjónvarpinu!

Hún er einnig mjög dugleg að sitja og hlusta á sögur og er á leiðinni í eldri hóp til að hlusta á lengri sögur. Við vorum mjög ánægð með það enda leggjum við mikið upp úr lestrinum. Þegar hún er úti fer hún ekkert hratt yfir (lík föður sínum þar) en unir sér vel og finnst gaman úti.

Síðan er hún óskaplega passasöm með fötin sín og vill helst ekkert vera að fara úr buxum og vera á sokkabuxum;) Þannig að stundum sefur hún með fötin hjá sér í hvíldinni. Þetta hlýtur að skrifast á eitthvað óöryggi eða bara að henni er afar annt um þessar fínu flíkur sem hún á;) En þetta byrjaði svona eftir jól en hefur lagast, ég skrifa þetta á veikindi.

Við vorum því afar ánægðir foreldrar sem gengum út úr viðtalinu. Í haust gæti samt verið að hún segði skilið við þennan leikskóla og byrji hérna í hverfinu sem er auðvitað hagstæðara og þægilegra fyrir alla en við eigum óneitanlega eftir að sakna Ægisborgarinnar enda frábært starfsfólk sem vinnur þar.

Litla skottan sagði síðan frábæra setningu í bílnum áðan: "Mamma, viltu koma með mér í búðina og humm kaupa kannski pakka handa mér!" Ein orðin soldið vön að fá pakka;)

Engin ummæli: