mánudagur, desember 07, 2009

Að vera búin með allt...

Ég ákvað að vera heima í dag til að gulltryggja mig að streptó vinir mínir yrðu endanlega farnir á morgun. Ég held að það hafi verið nokkuð skynsamleg ákvörðun hjá mér, ég að tala stanslaust frá 8-14:30 hefði verið frekar óskynsamlegt, breytir því samt ekki að samviskubitið hleðst upp hjá manni en svoleiðis er það nú bara einu sinni. Nú vona ég bara að dóttir og bóndi hafi ekki smitast af mér enda óendanlega leiðinlegir þessir streptókokkar. Pensilínátið gengur vonum framar og gerlarnir A og B fá að fljóta með hverri pillu.

En að jólaundirbúningi, ég held að hver einasta kona þekki þá tilfinningu að vilja vera búin með allt og þá helst í gær. Ég er alltaf að reyna að venja mig af þessu að vilja klára allt til að eiga ekkert eftir, held ég hafi erft þetta frá tengdamóður minni sem er snillingur í að KLÁRA! Núna er hún t.d. búin að pakka öllu inn og skreyta jólatréð, geri aðrir betur. Ég byrjaði að pakka inn nokkrum gjöfum áðan, bara svona til að byrja og þá kom þessi tilfinning yfir mig að ég yrði bara að klára að pakka öllu inn sem ég er búin að kaupa en sem betur fer var límbandið búið og þess vegna gat ég ekki klárað. Ég verð að venja mig á að njóta "mómentanna" meira. Það verður áramótaheitið í ár.

Annars er ekkert stress á þessu heimili fyrir jólin, allar gjafir úthugsaðar og ekkert stress með það. Jólamaturinn er klár og ég get ekki beðið eftir að halda fyrstu jólin okkar hérna á Laugarnesveginum, með lifandi tré og öllu sem því fylgir. Jólakortin eru komin úr prentun en fjöldinn slær öll met í ár, sökum brúðkaupsins að sjálfsögðu. Aldrei þessu vant er húsbóndinn með langan jólagjafalista svo hann verður ekki vandamál þetta árið.

Vikan er þéttskipuð enda lítið sem komst í verk um helgina. Á morgun ætlar Álfurinn og Eldur að koma og baka piparkökur með okkur Áru og það verður eflaust brjáluð stemning ef ég þekki okkur rétt.

Fyrir streptó hafði ég hugsað mér að fara í Powerade hlaupið á fimmtudagskvöldið en ég er svona enn að melta það, þetta eru 10 km og ég myndi vilja vera betur æfð en ég læt þetta ráðast.

AFO fór á Jiu Jitsu æfingu og ætlaði síðan að koma færandi hendi með ís og detta beint í So You Think You Can Dance með mér:)

Æj hvað mér finnst bloggið mitt alltaf notalegt.

Engin ummæli: