föstudagur, júní 17, 2005

Er hægt að biðja um betra veður á sjálfan Þjóðhátíðardaginn?

Ég var vöknuð um níu í morgun enda fór ég að sofa um leið og Desperate kláraðist í gær, uppgefin eftir erfiðan dag. Ég smellti mér í morgungöngu og hef sjaldan upplifað jafn mikla kyrrð og ró og fuglasöng. Fyndið að alltaf þegar það er svona gott veður þá segir maður alltaf góðan daginn við hvern einasta mann sem maður mætir og allir eru svo hressir og kátir. Mætti vera oftar svoleiðis.

Kíkti við hjá henni langömmu minni sem er að verða 93 ára. Hún var bara nokkuð hress og sagði mér að ég væri svo fín alltaf, það væru einmitt allir mjög myndarlegir í þessari ætt. Síðan sagði hún mér líka að ég væri alveg mátulega feit og það væri svo gott. Ég hugsaði með mér hvort það væri ekki örugglega jákvætt að vera mátulega feitur!

Þið vitið það þá að ef þið þurfið að lýsa mér fyrir einhverjum þá er ég mátulega feit!
Þar hafiði það og njótið dagsins:)

Fengum stig í gær sem var gott því hvert stig telur. Baráttan um sæti í byrjunarliðinu er mikil og það er af hinu góða held ég.

Á miðnætti mun ég svo væntanlega panta mér flug til New York þann 30. sept og koma heim á afmælisdaginn minn þann 6. okt. Mikið held ég að það verði magnað:)

Linda

Engin ummæli: