miðvikudagur, desember 29, 2004

Seint skrifa sumir en skrifa þó......

...hef einhvern veginn ekki haft eirð né löngun til að drita inn einhverju hérna á þetta blessaða blogg mitt.

Ég óska ykkur hins vegar öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Sendi reyndar 28 jólakort sem ég vona að hafi hlýjað einhverjum um hjartarætur. Fékk hins vegar bara 4 kort sjálf, hvar eru hin 24?

Það er hins vegar alveg yndislegt að vera komin heim og ég hefði ekki mátt koma degi seinna því það var stanslaust prógram frá því að ég lenti í Keflavík. Var alveg best í heimi að knúsa alla og kyssa.

Í fyrsta skiptið í 7 ár held ég var ég ekki að vinna fyrir jólin, ég naut þess því að sofa út, tjilla í bænum og pakka inn jólagjöfum. Gerði samt enga svaka jólahreingerningu en mun reyna að standa mig í áramótahreingerningunni.

Á Þorlák kíkti ég í bæinn með Andra, Rögnu, Sigríði, Helenu og Lindu og náðum við rétt að troða okkur inn á Mokka, þvílík var fólksmergðin.

Aðfangadagur rann síðan upp með allri sinni fegurð og enn og aftur var ég ekki að vinna og svaf því út og vaknaði rétt tímanlega í smörrebröd hjá pabbanum mínum en hann stóð vaktina í þeim málum.

Um kvöldin borðuðu svo Andri og Uppáhalds afi með okkur og kláruðum við tæp 3 kg af hamborgarhrygg. Andri fór síðan í Mosarimann að opna pakkana.

Það var mikið hlegið þegar var verið að taka upp gjafirnar og þá sérstaklega af afa mínum sem var aðeins kominn á undan sjálfum sér og skrifaði alltaf jól 2005 á öll kortin. Mommsan mín var heldur ekkert skárri og skrifaði undir eitt kortið jólakveðja, Ágústa, Heiðar, Linda, Harpa, Svava og Harpa, sem átti að sjálfsögðu að vera Andri.

Ég fékk endalaust mikið af flottum gjöfum og að vanda voru flestir pakkar í mínum sófa. Það mætti samt halda að það væri eitthvað vond lykt af mér þar sem ég fékk heil 5 body lotion, baðsalt og bað lotion og mér var nú allri lokið þegar ég fékk svo líka svitalyktaeyði.....

Frá Andra fékk ég síðan fallegan hvítagullshring, þennan hring má ekki kalla trúlofunarhring heldur hefur hann fengið nafngiftina 5 ára hringurinn, ég er bara glöð með það, enda er þessi hringur á miðputtanum eins og Helgi kýs að kalla það.

Eftir að hafa kíkt upp í Mosarima og opnað enn fleiri gjafir enduðum við síðan á því að fara í miðnæturmessu í Fríkirkjuna sem var yndislegt, Páll Óskar og Monika voru að spila eins og reyndar í fyrra og ég varð meyr og fékk tár í augum. Síðan sungum við nóttin var sú ágæt ein og heims um ból. Fullkominn endir á frábæru kvöldi. Helgi kíkti svo til okkar og ein rauðvín var opnuð og ostar lagðir á borð.

Jóladagur rann upp um tvöleytið, þá var ekkert því til fyrirstöðu en að henda sér í sturtu og maka á sig öllum nýju body lotionunum og fara í jólaboð með fjölskyldunni hans Andra. Þar var setið og etið í 5 tíma og endaði með að ég sofnaði í sófanum eftir átuna. Kvöldið var síðan bara rólegt eftir það, lestur góðra bók og meiri matur.

Annar í jólum var náttfatadagurinn mikli, þangað til ég áttaði mig á því að ég yrði að fara út að hlaupa eða svona meira út að renna mér, svo mikil var hálkan. Síðan fórum við í jólaboð til ömmu og átum dýrindis kalkún, ís, konfekt og kaffi. Því miður komst pabbi ekki með því hann var eitthvað að bardúsa í sætunum í bílnum, sem skullu síðan á vörina á honum og endaði með því að vörin bólgnaði upp og blóðið lak stanslaust. Hann sat því bara heima með plástur og ís. Eftir boðið kíktum við Andri til Sóleyjar og Kobba og spiluðum popppunkt með þeim og Rögnu og Vidda. Við stelpurnar fórum á kostum í þessu spili og gáfum sko ekkert eftir. Hver segir að millinafn George Harrison hafi ekki verið FORD!

Á þriðja í jólum var sofið út að vanda og stússast aðeins samkvæmt skipulagsplaninu mínu. Komst að því að ég átti yfir 30000 kall í orlof sem er alltaf óvæntur glaðningur þegar aurinn er að klárast.

Í gær var ég svo að vinna í adidas, fyrsti vinnudagurinn eftir 4 mánaða fjarveru. Get ekki neitað því að blendnar tilfinningar komu upp. Um fimmleytið fann ég síðan að ég var örugglega að fara að fá gubbuna sem er að tröllríða öllu á Íslandi. Kláraði samt vinnudaginn en var svo alveg bakk þegar ég kom heim og ég og Andri þurftum að cancelera leikhúsi sem við ætluðum í. Ég tók síðan tvær góðar gusur og var frekar slöpp í alla nótt. Mætti því ekki í vinnu í dag en er öll að koma til.

Það var ekki meira í bili.....
hvað á annars að gera á gamlárs?

Litla gubbustelpan

Engin ummæli: