föstudagur, desember 31, 2004

Árið 2004

Þar sem árið er senn á enda finnst mér við hæfi að setja saman stuttan pistil um liðið ár ásamt hápunktum þess enda þessi tími árs einmitt sá tími þar sem allir líta yfir farinn veg og skipuleggja hvað betur mætti fara og hvað stendur upp úr.

Þegar ég lít yfir árið 2004 í fljótu bragði get ég ekki kvartað. Þetta var gott ár, að vísu ansi ólíkt öllum öðrum árum sem ég hef lifað.

Árið fór rólega af stað eða svona miðað við minn mælikvarða í byrjun árs. 3 vinnur og nóg að gera í hópverkefnum í skólanum. Þar stendur nú einna helst upp úr vettvangsnámið með þeim stöllum Krunku og Ingibjörgu. Frábær vinna, frábært verkefni og frábær mórall. Hef samt ekki nokkrar áhyggjur af næsta vettvangsnámi sem verður í Korpuskóla og með yndinu henni Margréti.

Þó svo að álag og streita hafi oft á tíðum verið að buga mig lét ég ekki til leiðast og skellti mér í keppnisferð með Rögnu til Birmingham. Þar hét ég Linda Heimisdóttir og fór sem Team Manager from Iceland. Þetta var sweet og gott að komast burtu úr annríkinu hérna heima.

Prófin gengu sinn vanagang og voru óvenjuskemmtileg þetta árið enda tók ég bara próf síðastliðið vor. Þar eyddi ég öllum mínum tíma uppi í Kennaraháskóla í hópi góðra manna.

Sumarið var gott að því leyti að ég náði að ferðast heilmikið um okkar fallega land Ísland ásamt því að vinna með einni af mínum bestu vinkonum henni Rögnu. Við eyddum góðum tíma í slátt og önnur garðyrkjustörf ásamt því að sendast bæinn á enda. Einnig var ég í Baðhúsinu og adidas búðinni og náði að taka að minnsta kosti þrjár Lindur í adidas búðinni og þá ein þar sem ég var að afgreiða með pilsið girt ofan í að aftan!

Ég og Andri fórum með Möggu og Andra upp á hálendi 17. júní og þó svo að sú ferð hafi verið púum niður af ýmsum þá stóð þessi 17. júní upp úr af öllum 17. júní sem ég hef upplifað. Enda sé ég ekki hvað er að því að fara út á land á þessum degi í stað þess að vera í bænum þar sem ,,rignir hálfétnum pulsum, pappírsfánaræflum og prinspólóumbúðum........” Mikið lifandi skelfingar ósköp sem við eigum fallegt land. Við keyptum okkur líka allar græjur í útileiguna og fórum í tvær frábærar ferðir með þær. Sú fyrri á Laugarás og sú seinni á Hala í Suðursveit.

Toppurinn á sumrinu er samt að FRAMARAR náðu að halda sér uppi 6. árið í röð og nú hlýtur bara að fara að koma að titlinum.

Þegar á sumarið leið hófst eftirvæntingin fyrir Ítalíuförinni. Ekki hafði ég nú hugmynd um hvað ég væri að fara út í en þegar ég horfi til baka þá var frábært þarna úti. Þó svo að heimþráin og söknuðurinn hafi stundum bankað upp á hefði ég aldrei í lífinu viljað sleppa þessari ferð. Þarna kynntist ég endalaust af frábærum krökkum frá fullt af löndum ásamt því að kynnast Hrafnhildi enn betur og komast að því að hún er gull af manneskju. Þú varst mér svo sannarlega allt í þessari dvöl okkar.

Síðan kom ég heim reynslunni ríkari og örugglega nokkrum aukakílóum líka. Fólk talaði um hversu afslöppuð ég væri og rólegri en ég hef nokkru sinni verið. Það sæist bara í andlitinu á mér. Þetta er líka allt rétt. Á Ítalíu lærði ég einmitt að slappa af, lifa í núinu og njóta líðandi stundar. Ég komst að því að á Íslandi snýst lífsgæðakapphlaupið alltof um kaloríur og kolvetni. Allir eru að stressast yfir öllu, allt á haus því jólin eru að koma og fólk er farið að hugsa löngu fyrir jól hvernig það ætli að ná aukakílóunum af sér. Allir eru að velta sér upp úr annarra manna málum og hringsnúast í afskiptaseminni. Enda hefur fyrsta spurningin sem fólk tekur á mig meira og minna verið hva hefurðu breyst eitthvað og svo er tekið skannið á mann frá toppi til táar. Þessu hef ég líka alltaf tekið þátt í en héðan í frá ætla ég ekki að láta þetta stjórna lífi mínu eins og svo margir gera og reyna að lifa eins og ég gerði á Ítalíu, laus við allt stress og áhyggjur. Kannski er þetta óumflýjanlegt í þessu litla sjávarplássi sem við lifum í en það vakna örugglega allir einhvern tímann við þann vonda draum að hafa gleymt að hugsa um sjálfan sig sökum þess að öll athyglin var á náunganum.

Ég átti síðan mín bestu jól í faðmi fjölskyldunnar og naut þess að sofa út, lesa, horfa á dvd, spila og slappa af með Andra og í góðra vina hópi.

Þó svo að margt annað hafi borið á góma þá eru þetta topparnir án þess þó að ég vilji vanmeta litlu hversdagslegu atburðina, þeir voru ekki síður góðir.

Gleðilegt nýtt ár!

Linda

Engin ummæli: