Eins og ég var nú búin að minnast á við einhver ykkar varð ég vör við nýja tegund af pöddum hjá okkur. En þeir sem þekkja mig vita að ég er með röntgenaugu þegar kemur að allskyns kvikindum. Hver man ekki eftir silfurskottunum gömlu góðu...
Ég bókstaflega þoli ekki svona meindýr en samt sem áður er ég alls ekki hrædd við þau heldur tek ég þau upp, tel lappir, fletti upp í bókum, á neti og trakka niður menn sem geta sagt mér eitthvað um pöddurnar. Nú má ekki halda að ég hafi lifað í pödduumhverfi allt mitt líf heldur byrjaði þetta allt þegar silfurskotturnar komu á Grunninn. Þá fór ég að verða svo vakandi yfir þessu.
Ég gróf sumsé upp mann á netinu sem heitir Erling og er skordýrafræðingur og fór að senda honum meil og spyrja ýmissa spurninga því ég var búin að ákveða að þetta væru pottþétt veggjatítlur sem væru að leggja húsið undir sig. Já ég veit, ég mála alltaf skrattann á vegginn en við hverju býst maður eftir óhappaárið mikla!
Nú síðan sendi ég nokkrar í greiningu sem ég var samviskusamlega búin að safna í box og í ljós kom að þetta eru svokallaðar þjófabjöllur. Aldrei hef ég nú heyrt á þær minnst en komst sem sagt að því að þær geta borist með vörum og ýmsu öðru. Og það þarf að eitra fyrir þeim svo þær fjölgi sér ekki og leggi húsið undir sig! Ok þetta er skárra en veggjatítlur en ég var nú svona meira að vona að þetta væru bara einhverjar gróðurpöddur en ekki einhverjir helv.... þjófar en þeir virðast sækja að úr öllum áttum þetta árið en eins og margur veit er búið að stela græjum, hátölurum og bretti úr bílnum okkar og gaskútnum af grillinu!
Við skulum vona að eitur á þjófabjöllurnar loki óhappahringnum en ég er búin að panta mann í jobbið kl. 14 á morgun.
Annars segi ég góða helgi!
-Ekki ráð nema í tíma sé tekið-
Engin ummæli:
Skrifa ummæli