laugardagur, september 11, 2004

Bellan skrifar nýjar fréttir frá landinu þar sem engin er að stressa sig!!

Jæja ég hef ekki náð að henda inn neinu nýju því loksins þegar maður kemst á netið er ég alltaf svo upptekin að tala við einhverja á msn! En það er sko margt búið að gerast hérna, gat nú ekki verið að allt gengi eins og smurt.

Sænsku stelpurnar fengu tvær stelpur í heimsókn sem voru skiptinemar hérna í fyrra, ein sænsk og ein frönsk og við leyfðum þeim að sjálfsögðu að gista hjá okkur í þessari risaíbúð sem við erum í. En hvað haldið þið, leigusalinn hann Cutri Cucinotta er pottþétt einhver mafíósi frá suður-Ítalíu! Hann kom hérna og var alveg brjálaður yfir því að það væru 7 manneskjur að gista hérna en við náðum að telja honum trú um að við værum bara fimm og hinar tvær væru bara vinkonur okkar úr skólanum og við héldum að hann hefði fallið fyrir því. Um kvöldið kom svo systir hans Veronika sem býr hérna fyrir ofan okkur og sagði að það væri eitthvað að, við værum að ljúga að þeim og ég veit ekki hvað og hvað. Við þurftum að fela hinar stelpurnar inni í skáp og lauma þeim út seint um kvöldið því þær ætluðu að gista einhvers staðar annars staðar. Cutri tilkynnti okkur það síðan að ef einhver myndi gista hérna þá væri það 15 E nóttin og ef við segðum ekki frá því myndi hann rukka okkur um 45 E. Hann er alveg klikkaður. Við fengum síðan samning í hendurnar sem var mjög vafasamur þannig að við töluðum við konu sem hjálpaði okkur að finna hina íbúðina sem okkur bauðst og hún sagði að þessi samningur væri ekki í gildi, hann hefði kannski verið í gildi árið 1970 og eitthvað en ekki núna. Núna er Lísa írska stelpan búin að sitja á fullt af fundum með Cutri og Danielu á skrifstofunni og hún sagði að það væri náttúrulega fáránlegt að fólk mætti ekki gista hérna en Cutri kom með endalaust af ástæðum sem voru fáránlegar eins og það væri óþægilegt fyrir hinar að vera á náttfötunum fyrir framan einhvern gest og að það gæti truflað lærdóminn okkar, hva er hann pabbi okkar eða, nei maður spyr sig!!!

Það hefur hins vegar alveg ræst úr þessu og þegar ég spurði hvort mamma og amma mættu gista hérna þá var það sko ekkert mál, hann fór líka alveg að gráta hérna þegar hann var að sýna okkur samningana, bara að reyna að láta vorkenna sér. Stórfurðulegir þessir Ítalir, það þurfa samt allir að borga 7, 50 E (670 kall) fyrir nóttina en við verðum að sætta okkur við það svona er þetta bara hérna. Sem betur fer er þetta komið á hreint, hann er samt alveg mættur hérna og segist vera að gera við eitthvað, hann er alltaf eitthvað að tjékka á okkur.

Annars gengur allt bara sinn vanagang, erum búnar að fara í tvo tíma á námskeiðinu og maður er bara alveg tekinn upp fyrir framan alla og þarf að svara á ítölsku en það er alveg ágætt því þá síast þetta kannski inn. Það vita allir að Ítalir tala mikið með höndunum og okkur var alveg kennt á námskeiðinu hvernig við ættum að nota hendurnar mjög mjög fyndið. Þeir tala líka mjög hratt og mikið sem hentar mér mjög vel því þeir sem þekkja mig vita að ég hata ekkert að tala hihi!!

Í gærkvöldi var okkur boðið í mat (að sjálfsögðu pasta hvað annað!!) hjá sænskum strák ásamt fullt af öðrum skiptinemum. þarna var saman komið fólk frá öllum heimshornum, við fórum síðan á nýjan stað sem var að opna og dönsuðum svaka mikið, ég er alveg með hælsæri eftir það. Við hittum líka einn ítalskan strák sem er vinur vina okkar hérna og hann er voða mikið inni í boltanum hérna og er ég sem sagt farin að halda opinberlega með Sampdoria (held að það sé skrifað svona) þeir spila í bláu eins og besta liðið FRAM sem er einmitt að fara að tryggja sig í deildinni á morgun, koma svo strákar klára þetta á morgun. Við hittum líka tvibba sem eru norskir, annar heitir Pal og hinn Túr, hversu fyndið er að heita Túr og Túr er mjög smámæltur þannig að ég hef átt í vandræðum með að skilja hann.

Jæja held að ég sé búin að drita flestu hérna niður. Ég tók nokkrar spes myndir fyrir þig Helgi ef þú ert að lesa. Þetta eru myndir af konum (eldri konum) sem eru komnar á Tiger tímabilið og spóka sig um á ströndinni í alls kyns tiger bikiníum!! Ég hef ekki náð að setja inn myndir hérna því við erum bara með svona dial upp tengingu sem er mjög hæg en 15. sept opnar frítt netkaffi fyrir okkur hérna og ég reyni að setja þær inn þar. Í dag ætluðum við að fara á ströndina en erum eiginlega bara að spá í að fara í IKEA og eina verslunarmiðstöð hérna.

Ég setti inn rangt póstnúmar hérna en það er 16134 Genova en ekki 16124, ég vona að þið séuð ekki búin að senda mikið af bréfum á rangt póstnúmar heheJ

Knús til allra sem eru líka einir í útlöndum eins og Svava-Jelling, Hjördís-Jelling, Auður-Árósum, Megalúf, Hulda í USA, Rexið mitt sem þarf alltaf að fara út að æfa og keppa og fleiri og fleiri. Mér finnst þetta nú alveg svolítið erfitt en reyndar gleymir maður sér alveg í amstri dagsins, það er svona aðallega þegar ég er að fara að sofa og hugurinn fer á fullt.

Stórt knús til allra hinna líka og web cameran mín er farin að virka þannig að þið getið öll farið að njóta brúnkunnar minnar online hihi!!

Og eitt enn ég er farin að drekka kaffi, ójá Rut ég mun þiggja expresso úr nýju vélinni þinni í Geislanum. Mitt uppáhald er samt caffe maracchino sem er svona expresso, latte og súkkulaði, ég er samt ekkert orðin þannig að ég vakni á morgnana og verði að fá kaffið, ég meira svona byrja svona að pína þetta ofan í mig og svo venst það.

Ciao
Bellan.

Engin ummæli: