miðvikudagur, september 15, 2004
Dagurinn sem Bellan svaf í 100 ár!!
Í dag er ég eiginlega bara búin að sofa. Við skelltum okkur á frábæran stað í gær sem heitir XO. Þar er hægt að kaupa sér ýmsa góða kokteila á 5 evrur og þá fær maður líka að borða eins mikið og maður vill af hlaðborði sem er þarna. Virkilega góður matur og drykkir, eiginlega of góðir, ég fékk mér þrjár mismunandi týpur í gær og þær voru hver annarri betri. Eftir það fórum við á festival sem er hérna í bænum. Þarna eru saman komnar ýmsar artífartí týpur að selja alls kyns second hand vörur. Einnig eru tónleikar og diskótek út um allt. Hægt fara að velja um Bob Marley svæði, Latin dansa (ég tók að sjálfsögðu sveiflu þar), svona cover band og að lokum ítalski Hverfisbarinn (reyndar með svona lögum sem voru vinsæl í fyrra, enda allt nokkrum árum á eftir hérna). Það voru ófá danssporin tekin í gær og það eru ófáir plástrarnir á bólgnu fótunum mínum!! Til tilbreytingar tók ég ekki týpuna “Linda í ADIDAS búðinni”.
Mér fannst því alveg eins og það væri sunnudagur í dag og ákvað bara að sofa endalaust enda varla búin að hvíla mig neitt síðan ég kom hingað. Alltaf eitthvað að gera. Á mánudaginn fórum við í matinn hjá prófessornum okkar og ég hef ekki smakkað jafngóðan mat og við fengum þar í lengri tíma. Ég hef náttúrulega alltaf verið mikið fyrir eldamennskuna og ekki þekkt fyrir annað en góða rétti og fékk því uppskriftina af pasta el pesto sem er voða gott og ef maður borðar það ekki getur maður alveg eins farið aftur heim til Íslands, eða svo er sagt. Ég var einmitt að enda við að elda það og þetta heppnaðist svona líka vel. Ég er ótrúleg í eldhúsinu þegar reynir á!! Núna er ég bara að dunda mér hérna í ítölskunni, maður er aftur komin í sama gamla pakkann og maður var í í grunnskóla, þylja upp endalaust af sögnum í öllum persónum, afar fróðlegt og skemmtilegt. Annars gengur bara ágætlega á ítölsku námskeiðinu en kennarinn hatar ekki að taka fólk upp í tímum og spyrja fólk spjörunum úr. Ég var einmitt tekin fyrir í gær og átti mjög erfitt með að skilja það sem ég átti að gera og þá var ekkert gefist upp og ég var bara látin svara þangað til ég gat þetta rétt. Ég var ekki bara orðin sveitt á efri vörinni heldur lak úr hverri einustu holu líkamans!!
Mamma og amma eru búnar að staðfesta flug hingað þann 5. okt – 11. okt. og Andri er að hugsa um að koma þann 26. okt, þannig að það verður nóg af gestum í næsta mánuði. En ég minni á að það eru þrjár vikur akkúrat í dag í afmæli mitt, ef einhver var búin að gleyma!
Ástarkveðjur,
Senjorina Linda
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli