mánudagur, apríl 09, 2012

Pabbi snillingur!


Pabbi er ótrúlegur þegar kemur að tréverki, skil stundum ekki hvað hann er að gera þarna í bankanum (þó ég viti að hann er snillingur á þeim vígstöðvum líka) enda afbragðs trésmiður:) Þennan fallega skáp, hillu og símabekk smíðaði hann þegar hann var í Vogaskóla, já Vogaskóla! Man ekki betur en að ég hafi bara verið í því að brjóta blöðin í Laugarnesskóla þegar ég átti að saga eitthvað út!

Svava amma mín var alltaf með þetta heima hjá sér þegar hún lifði en við höfum haft bekkinn síðan við fluttum inn á Laugarnesveginn. Ég rak síðan augun í þennan skáp í geymslunni hjá pabba og fannst ómögulegt að hann væri ekki í notkun. Honum var því húrrað hérna upp í dag og það sem ég er glöð með þetta. Ekki bara af því að þetta er glæsilegt verk eftir hann pabba heldur líka því þetta minnir mig á yndislega góðar stundir sem ég átti heima hjá henni Svövu ömmu.

Nú get ég ekki beðið eftir að taka allar skúffur og skápa í gegn í öllum skenkum og ég sé fyrir mér að þessi skápur eigi eftir að nýtast vel til að geyma allskyns dót sem maður vill síður hafa uppi á borðum.

Farin að gera lista yfir það í hvaða röð allt verður tekið í gegn;)