föstudagur, apríl 06, 2012

Föstudagurinn langi - í orðsins fyllstu!

Ára er búin að velta þessum föstudegi langa mikið fyrir sér og sagði nokkrum sinnum í dag að henni þætti þetta eitthvað svo skrýtinn dagur! Hún startaði honum náttúrulega á miðnætti með nokkrum tilheyrandi gusum og var meira og minna vakandi í nótt svo það er ekki skrýtið að henni hafi þótt þetta ansi langur dagur. Hún var samt svo fáránlega jákvæð og dugleg með þetta allt saman, sagði til að  mynda að það væri nú aldeilis gott að hún væri í fríi þegar hún fengi þessa gubbupest. Foreldrar hennar voru kannski ekki alveg jafn sammála með það en kunnu að meta þessa Pollýönnu sem hjálpar til í veikindum.

Kári Kaldal kom síðan með skemmtilegt komment í gær þegar við vorum að ræða þessa daga alla sama, hann vissi alveg hvað gerðist á föstudaginn langa og síðan sagði ég að dagurinn í dag héti skírdagur og það stóð ekki á svörunum: "Já einmitt, þá skírði Jesús alla vini sína". Ég tala alltaf um daginn sem Jesús borðaði síðustu kvöldmáltíðina með lærisveinum sínum en Kári Kaldal er ekki svo vitlaus sbr. upplýsingar af vísindavefnum:

"Fimmtudagur fyrir páska nefnist skírdagur. Orðið 'skír' merkir 'hreinn, óblandaður; skær, bjartur; saklaus' og vísar nafnið þannig til þess að Jesús þvoði fætur lærisveina sinna. Sögnin skíra merkir að hreinsa og hin upphaflega merking þess að barn sé skírt er þess vegna hreinsun."


Hún yndislega Svava amma hefði orðið 102 ára í dag hefði hún lifað. Blessuð sé minning hennar.