sunnudagur, apríl 29, 2012

Mamma 50 ára og Magdalena 4 mánaða!


Ansi stór dagur í dag þegar hún móðir mín náði þeim merka áfanga að verða 50 ára. Hún og pabbi eyddu honum í Prag í bongó blíðu þar sem mamma æfði sig á nýja ipadinn sinn:) Mamma er náttúrulega alveg ótrúleg kona, með eindæmum fórnfús, hógvær og yndisleg. Ég er enn að hringja í hana daglega verðandi þrítug á árinu,  stundum bara til að láta hana vita hvað ég er að gera en oftar en ekki til að ráðfæra mig við hana og þá á hún alltaf einhver góð ráð í pokahorninu. Þessu kem ég til með að halda áfram um ókomna tíð. Mamma er svo hjálpsöm, skilningsrík og góð alltaf hreint að það er eiginlega ótrúlegt - hún er mín fyrirmynd þegar kemur að móðurhlutverkinu - til hamingju með daginn elsku besta mamma mín:)


Kannski örlítið minni áfangi en þó stór í augum okkar foreldranna, að verða 4 mánaða. Magdalena hefur heldur betur náð stórum áföngum á þessum fyrstu 4 mánuðum lífs síns og tók sig til í tilefni dagsins og velti sér af baki yfir á maga í fyrsta skipti en hefur farið þónokkrum sinnum hina leiðina. Henni tókst líka að ryðja upp tveimur tönnum og er búin að ferðast til Kaupmannahafnar. Hún er yfirleitt nokkuð meðfærileg en skapstór að sögn föður hennar. Ef hún reiðist verður hún reið og þarf tíma til að ná sér niður áður en hægt er að tjónka við hana. Er yfirleitt að sofna um níuleytið á kvöldin og kann vel við að fara inn í herbergi í kósý milli átta og níu, drekka vel og mikið og hlusta síðan á umhverfishljóðin sín áður en hún sofnar. Síðan er hún að drekka að meðaltali 2-3 sinnum yfir nóttina, yfirleitt aldrei fyrr en tvö í fyrsta lagi, stundum seinna og svo undir morgun. Er búin að vera frekar kvefuð eftir ferðalagið, stífluð og með lekandi augu og hósta en virðist ætla að hrista þetta af sér. Hún er farin að veita umhverfi sínu mikla athygli, búin að þjálfast í að halda á hlutum og grípa í. Finnst stóra systir langskemmtilegust og fylgist með öllu sem hún gerir. Yfir daginn tekur hún þrjá lúra. Fyrsta um tveimur tímum eftir að hún vaknar og hann er yfirleitt lengstur, síðan annan styttri og loks einn powernap seinnipartinn. Vakir síðan í svona þrjá tíma fyrir nóttina. Er dugleg að súpa og verður spennandi að sjá hvernig hún bregst við graut og fleiru þegar þar að kemur - vonandi fetar hún í fótspor systur sinnar sem sagði ummummm við hverrri skeið sem rataði í munninn.

Á myndasíðunni eru síðan brakandi ferskar apríl myndir - gott ef þær hlaupa ekki á tveimur hundruðum!

4 ummæli:

arna sagði...

mikið skil ég þig vel, en ég heyri líka í mömmu daglega og jafnvel oft á dag :)
til hamingju með mömmuna þína!

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með mömmu Linda. Kv Ása amma uje og ók

Linda sagði...

Takk fyrir það:)

soley sagði...

heyrðu nú mig! er "no blog next month" þema í gangi núna? okkur útlendingana þyrstir í fréttir og myndir af laugarnesfjöllunni.