laugardagur, desember 27, 2008

Gleðilega hátíð elsku vinir og ættingjar og kærar þakkir fyrir okkur fjölskylduna:)
Við hjúin fengum margar fallegar gjafir m.a. örbylgjuofn. vöfflujárn, hnífasett frá Kitchen Aid, saltkristalslampa og kertastjaka, matreiðslubók og margar, margar fleiri góðar gjafir.

Heimasætan fékk auðvitað mest af öllum og er nú 6 náttfatasettum, eldhúsi, búðakassa, nokkrum bókum og heimaprjónuðum vettlingum ríkari svo eitthvað sé nefnt!

Nokkrar myndir hér en miklu miklu meira inni www.123.is/agustarut

Við erum auðvitað búin að hafa það yndislegt og njóta þess að vera í fríi, hanga á náttfötunum fram eftir degi, fara í jólaboð og lesa góðar bækur. Alveg eins og það á að vera:)

Feðginin mætt á Búlluna samkvæmt hefð á Þorláksmessu

Vöfflu og heittkakó brunch á Laugarnesveginum

Heimasætan í jólaboði hjá ömmu Ásu

Mætt í bíó á Skoppu og Skrítlu
Jólaparið við nýpressuð og fín:)

Njótið nú hátíðarinnar áfram og stay tuned fyrir áramótaannálinn sem hefur sjaldan verið bitastæðari!




mánudagur, desember 22, 2008

Fólkið í blokkinni...

Mér finnst blokkin mín svo fín því í henni býr svo mikið eðalfólk. Í gær kom litla skottan sem býr með foreldrum sínum á sama palli og við með litla gjöf handa Áru og Ára fór svo með gjöf til hennar í dag og þær léku sér saman. Síðan hafði ég lánað þeim á fyrstu til hægri föt af Áru fyrir einhverju síðan en þau voru að eignast stelpu og nú í kvöld komu þau með ostakörfu til okkar. Á morgun er okkur síðan boðið í skötu í næsta stigagangi hjá Ragnheiði og séra Hjalta, það eru víst ekki allir sem fá inngöngu í það boð! Ég hef nú ekki verið þekkt fyrir að smakka skötu en sé til á morgun.

Ég held að það sé bara ekki til betri blokk - og það er bannað að flytja úr blokkinni góða fólk, bara harðbannað;)

Annars er allt tilbúið fyrir jólin hérna á þriðju til hægri, bara spurning um að henda sturtuhenginu í vél og tæma þvottakörfuna.

Ég og Ára verðum örugglega heima á morgun ef einhverjir eru á ferðinni, heitt á könnunni, piparkökur og konfekt, jólabjór og maltöl...

sunnudagur, desember 21, 2008

Við foreldrarnir vorum nú ansi stolt þegar við fréttum að þessi litla skotta hefði sagt jólasveinum hátt og skýrt nafnið sitt þegar hann spurði hvað hún héti! ÁGÚSTA RUT:) Allt í einu hætt hún bara að segja Ága og segir nafnið alveg rétt.
En í gær vorum við með næturpössun og borðuðum á Caruso í góðra vina hópi. Fórum síðan bara heim og skreyttum jólatréð og fórum ekkert of seint að sofa, sváfum út og þrifum allt hátt og lágt og Andri var síðan dressaður upp hjá Brandi þannig hann fer ekki í jólaköttinn þetta árið en hefur eflaust farið í hann flest öll önnur undanfarin jól;)
Helgi og Gunna

Við foreldrarnir í foreldrafríi:)

Eygló og Brandur - tilvonandi foreldrar 11. maí 2009:)

Eva og Hjalti guðfaðir - tilvonandi foreldrar 11. apríl 2009:)


Núna á ég bara eftir að pakka inn 4 gjöfum og skrifa 4 jólakort, kaupa drykki, konfekt, osta og þannig góss sem gott er að eiga yfir jólin og síðan mega jólin bara koma!
Jólafríið byrjar allaveganna mjög sweeeeeeet


laugardagur, desember 13, 2008



Ég er svo óskaplega glöð að vera aftur orðin ég sjálf...





heilsan er svo sannarlega oft vanmetin og núna ætla ég að reyna að hugsa eins vel um hana og ég mögulega get. Er byrjuð að taka inn Heiði - fæðubótarefni frá Jurtaapótekinu sem á að vera gott í maga og byggja upp ónæmiskerfið, einnig ætla ég að reyna að standa mig í lýsinu og síðan auðvitað að keyra mig ekki alveg út sem kemur svona einstaka sinnum fyrir:)

Við mæðgur hófum daginn á góðri sundferð í Laugardalinn og síðan skelltu feðginin sér í klippingu þannig að húsfrúin er sú eina sem á eftir að láta lappa upp á hárið á sér eins og sést vel á myndinni til hliðar en við systur skelltum okkur í piparkökugerð á Grunninum og náðum að baka alveg hreint heilan helling og á morgun verða þær skreyttar ríkulega með glassúr.

***

fimmtudagur, desember 11, 2008

Það sem ég taldi saklausa sólarhringsælupest var síðan ekkert svo saklaus og mætti frekar líkja við úthreinsunarferð til Póllands með Jónínu Ben!

Eftir fjóra daga af stanslausum klósettferðum taldi ég nóg komið og fékk lyf í dag sem stöðva slíkan verknað, það virðist virka ágætlega og ég hef haldið mat í maga í fyrsta skipti síðan á sunnudaginn var. Ég er hins vegar afskaplega orkulítil og ekkert að baða öll ljós íbúðarinnar eins og ofurvinkona mín hún Lára. Ég vona bara að ég nái að baða sjálfa mig fyrir jólin! En að öllu gamni slepptu þá vona ég að þessar tvær undanfarnar úthreinsunarvikur (fyrst kinnholuútskolið og síðan já upp og niðurskolið) hafi skolað öllum pestum og bakteríum út það sem af er skólaárinu.

Ég missti meira að segja af hrekkjaviku í vinnunni (hugmynd fengin úr Norðlingaskóla) en mér skilst að þar hafi ýmsir hrekkir verið framkvæmdir, bílar vafnir inn í plastumbúðir, pipar settur í kaffivélina, salt í smjörið, stofum umturnað, tölvur teipaðar, auglýsingar inn á barnalandi o.s.frv.

Og ég sem hafði planað einn hrekk...

Á morgun vona ég að ég geti borðað eitthvað almennilegt og nái að safna upp tapaðri orku, síðan held ég að ég verði að fá mér eitthvað megaboozt til að byggja upp ónæmiskerfið eftir þetta allt saman!

Vonum að þetta verði síðasta sjúkrabloggið mitt, á árinu í það minnsta:)

mánudagur, desember 08, 2008

Jæja...

Þá er ég komin með ælupest - það er nú alltaf jafnhressandi. Greinilegt að ég á að taka inn nokkrar pestir fyrir jólin! Ég krossa bara putta að Áran sleppi - henni verður haldið frá mér í dag að minnsta kosti. Ég geri nú samt ráð fyrir að þetta gangi yfir á sólarhring líkt og slíkar pestir gera - flensusprautan er greinilega ekki málið fyrir mig.

Núna býð ég eftir fréttum af nýjasta barninu í vinahópnum sem er nú heldur betur búið að láta bíða eftir sér, barn Daða og Heiðu. Börnin verða síðan ansi mörg sem bætast í hópinn á næsta ári en þau eru svona að meðaltali tvö í mánuði fram á vor, sumir í first round, aðrir í second round og enn aðrir meira að segja í third round!

Farin að súpa kók og maula fransbrauð!

föstudagur, desember 05, 2008

Mikið er að það nú gott að vera komin í helgarfrí...

...stíflulaus og mjög hress. Ég ætla að klára að kaupa jólagjafir um helgina og ditta einnig að þessum sem ég er að braska með sjálf.

Á morgun er síðan mega masterclass tími í Laugum og þar verð ég pottþétt á fremsta "bekk" í body jam:)

Góða helgi!

fimmtudagur, desember 04, 2008

Ég væri svo ótrúlega mikið til í það stundum að vera í vinnu til hádegis...

það er eitthvað svo næs eitthvað að koma heim um hádegi en reyndar ekki alveg eins næs að fá helmingi minni laun fyrir utan það að svona lagað er bara ekkert í boði á tímum sem þessum. Sæi fyrir mér að vinna til hádegis, fara í ræktina, koma heim og sjæna íbúðina og versla inn í kvöldmatinn, sækja barnið um þrjú-, fjögurleytið og vera svo bara hrikalega hress:)

En eina ástæðan fyrir því að ég vann til hádegis í dag er útsog nr. 2 - sem hefst eftir rúman hálftíma - stemning!

miðvikudagur, desember 03, 2008

Nokkrir hlutir sem mig dauðlangar að gera en kem mér aldrei í (sko hvað varðar heimilisstörf - fullt af öðrum hlutum sem mig langar meira að gera en þetta!!!):

  • Þrífa bakaraofninn
  • Skrúbba baðið með kraftsvampi
  • Skipuleggja bolaskúffuna mína
  • Pússa glerin í stofuborðinu mínu

Þetta eru engin jólamarkmið - meira svona sem ég hugsa stundum um en verður aldrei af:)

Annars höfum við rörið það bara gott heima í dag og hlökkum til næstu losunar eftir hádegi á morgun.

þriðjudagur, desember 02, 2008

Framhaldssagan...

Eins og margir vita hef ég þjást af stíflu, streptókokkasýkingunni, hósta og almennum óþægindum sem því fylgir síðan í byrjun sumars. Pensilínskammtarnir hafa verið ófáir og nefspreyið notað ákaft en allt kemur fyrir ekki - þetta hættir ekki og vill ekki burt!

Hjalli var svo indæll að benda mér að panta mér tíma á háls-, nef og eyrnalækningadeild Landsspítalans og þangað mætti ég galvösk í morgun - vongóð um að loks myndi finnast lausn á vandamáli mínu. Ég lenti á fínum unglækni sem skoðaði mig í bak og fyrir og ég sagði honum sólarsöguna ásamt því að ég væri kennari og ætti barn sem var að byrja á leikskóla þannig að pestir væru allt í kringum mig.

Hann nefndi nokkra möguleika, meðal annars útskolun og myndatöku en fyrst fremst yrði ég náttúrulega að fara aftur á sýklalyf því það væru grasserandi bakteríur þarna. Síðan skrapp hann aðeins fram til að ráðfæra sig við sérfræðing og kom til baka með þær fréttir að það ætti að hefja útskolun - sérfræðingurinn hefði tekið ákvörðun um það þar sem ég hafði verið með þetta svona lengi. Allt í góðu með það og ég var glöð að loks væri eitthvað gert!

Hann byrjaði á því að deyfa mig og þræða blýantslöngum pinnum upp í nefið mitt - sex talsins sem áttu að koma einhverri deyfingu í gang og opna svæðið. Með pinnana sat ég svo á ganginum í um 20 mínútur á meðan deyfingin var að virka.

Þá mætti sérfræðingurinn á svæðið - kona á aldur við mömmu en áður hafði hjúkrunarfræðingurinn útskýrt fyrir mér að það kæmi þrýstingurinn þegar vatni yrði sprautað inn og öllu skolað út. Ég fékk stóran smekk og skál til að halda á og síðan var hafist handa - þeta var ekkert bara lítil dæla heldur voru rörum komið fyrir inni í nefinu og síðan risasprautu stungið inn. Og ó men hvað þetta var vont og samt var búið að deyfa - þrýstingurinn var svakalegur og það sem kom út, blóð og drulla og gröftur og já smekklegt...

En svo ég komi mér nú að punchlæninu - það fyndna var að sérfræðingurinn tók því örugglega þannig að ég væri nokkuð mörgum árum yngri en ég er - allaveganna svona tíu, því allan tímann sem hún var að vinna að þessu fékk ég "uppörvandi" komment eins og þessi: "þú ert nú algjör hetja", "þú er rosa dugleg", "það eru sko ekki allir sem standa sig svona vel" og "það líður yfir mjög marga í þessu". Þetta er nú varla eitthvað sem maður segir við 26 ára gamlan grunnskólakennara með eitt barn á leikskóla! Eða hvað:)

Nú vona ég bara að þetta eigi eftir að hjálpa til en núna er ég með rör í annarri nösinni því ég á að mæta aftur á fimmtudaginn í skol númer 2. Ég stefni náttúrulega ótrauð að því að standa mig alveg eins og hetja - hvað annað:)

Góðar stundir!

föstudagur, nóvember 21, 2008

Litla skottið að telja upp á tíu:)


Hæ og hó - ég setti inn nokkrar myndir, ekki ýkja margar en einhverjar af myndarskapnum í sjálfi mér (með aðstoð tveggja yndislegra vinkvenna sem virðast nenna að aðstoða mig við allan skapaðan hlut og ég vona að ég aðstoði þær líka einhvern tímann!!!), síðan eru nokkrar af litlu myndlistakonunni og Andra yfirgrænmetiskokki...

Njótið þess að eiga góða helgi kæru vinir:)

laugardagur, nóvember 15, 2008


Einum pensilín skammti, smá magapílum og eyrnabólgu síðar...


erum við bara að verða nokkuð hress. Allir fjölskyldu-meðlimir þó með kvef og sumir hósta en svona gengur þetta bara. Í næstu viku verða líklega teknar einhverjar myndir af nebbanum mínum sem vill endilega stíflast aftur og aftur upp í enni með tilheyrandi hausverk og leiðindum. Ára er síðan bara að pikka upp leikskólapestir og fékk eyrnabólgu í annað eyrað. Andri er líka þrælstíflaður en við skelltum okkur þó á Mokka í dag aðeins til að viðra liðið og gæða okkur á ljúffengu súkkulaði og vöfflu með rjóma sem Áran eeeelskar og sagði meiji vöfflu meiji vöfflu.

Í gær höfðum við það bara huggulegt og horfðum á Lottu með popp eftir að Andri hafði eldað Pakistanskan grænmetispottrétt en núna stendur hann sveittur og gerir Misosúpu. Ég hef því algjörlega fríað mig frá allri matargerð á meðan á þessu stendur!

laugardagur, nóvember 08, 2008

Ég sé að kommentakerfið hefur tekið kipp við birtingu dagbókarskrifanna...

kannski öllu skemmtilegri skrif þarna þegar ég var 14 ára;)

Ég ætla því að afhjúpa fleiri þó svo að ég fái aumingjahroll við innslátt hverrar setningar!

Dæmi 3 - svo ég haldi nú áfram með fiskafélagið...

22. janúar 1996

Ég er að fara að sofa og ég hlakka svo til að sjá hann Andra á morgun.
Í dag í skólanum var hann svo sætur og skemmtilegur og ekki eins feiminn við mig eins og venjulega. Hann var að segja okkur að við ættum að gefa pýrenafiskunum sem við ætlum kannski að kaupa, þurrkaðar rækjur og hann var svo mikil dúlla (dúlla undirstrikað 14 sinnum!)

framhald 22. janúar 1996:

En nú er aðalatriðið, í dag var ég að spjalla við hann og þá sagði Samía: "Þið yrðuð sætt par" og ég svona hló ha ha ha og þá sagði hún að hún héldi að hann væri hrifinn af mér og ég hló aftur. En hún sagði að einhver hefði sagt henni það og þá fór ég að hafa meiri áhuga á að spjalla um þetta við hana en hún vildi ekki segja mér hver sagði henni það og núna vildi ég óska þess að þetta væri satt en það er það örugglega ekki.

*aumingjahrollur og smá hlátur*

vona lesendur góðir að þið séuð ekkert farin að efast um heilbrigði mitt...

föstudagur, nóvember 07, 2008

Ég þurfti aðeins að skottast niður í geymslu áðan...

og fann ýmislegt skemmtilegt, rauðan kjól sem ég og Álfrún keyptum þegar við fórum til Barcelona 2001 að mig minnir og mér til mikillar gleði þá kemst ég í hann, jólakjóllinn í ár bókað, skella smá fatalit í hann og hann er eins og nýr. Rándýr á sínum tíma og seldur í pesetum en þá var nú efnahagsástandið annað en í dag. Einnig var ég skemmtilegan gleymérei pott frá Möggu sem ég eftir að setja fræ í...

síðast en ekki síst fann ég THE DIARY frá árinu 1996 eða bókina um Andra sem ég ritaði í um hálfs árs skeið þegar ég var í 8. bekk.

það er alveg frábært að lesa þessa bók - grafalvarleg skrif hjá mér og hugleiðingar 14 ára ástfanginnar stúlku;)

Sem dæmi:

"Ég er í svokölluðu fiskafélagi í skólanum sem sér um að kaupa fiska fyrir skólann. Andra langar held ég svo rosalega að vera í því en þorir ekki því Helga finnst það eitthvað ansnalegt. Það væri alveg frábært ef hann vildi vera með því þá gæti ég séð hann oftar".
Já það hefði nú aldeilis létt mér lífið á þessum árum ef Andri hefði verið með í fiskafélaginu...haha

Annað dæmi:

"Ég er alltaf glápandi á hann því hann er svo sætur (sætur er meira að segja undirstrikað) og í dag vorum við að spila og stelpurnar þurftu alveg að öskra LINDA þú átt að spyrja og ég var alveg með stjörnur í augunum eftir að hafa verið að glápa á hann og sagði rugluð númer hvað og spurningarnar hafa ekki nein númer. Það er nú ekki gott að vera ruglaður af ást!
Ónei það er sko ekki gott að vera ruglaður af ást en að vera ruglaður og skrifa svona bók, það er sko í lagi 12 árum síðar;)

Mikið er ég búin að skemmta mér við þennan lestur!

Góða nótt

fimmtudagur, nóvember 06, 2008


Ástand mitt var greinilega ekkert bara bundið við daginn í gær því ég fór heim úr vinnunni áðan vegna þess að það var eins og einhver væri að hamra í hausinn á mér! Ég vona að sé ekki að fá einhverja pest - ég sem fór í flensusprautu í síðustu viku.

Ég er bara hundslöpp og ligg eins og skata, vona að þetta rjátlist af mér í dag og geti farið spræk inn í helgina.

Ég setti nokkrar myndir inn til að stytta mér og ykkur stundir - Áran er náttúrulega alltaf sama krúttið - vaknaði syngjandi í morgun, við heyrðum bara í henni inni í herbergi hjá sér að syngja: sofu unga atin min, uti egnið gætur...og afi minn og amma min út á bakka búa!

miðvikudagur, nóvember 05, 2008

úff þetta er svona one of those days...

þar sem maður er bara gjörsamlega búin á því á sál og líkama og allt gengur einhvern veginn á afturfótunum, sulla niður sósu, helli úr jógurt, erfiðir fundir, álag í vinnunni etc...

já þetta eru ekki stórvægileg vandamál en ofsalega vorkennir maður stundum sjálfum sér þegar þreytan er svakaleg og maður á bara svooo bágt eitthvað

svona er ég núna en ætla í sturtu og leggjast undir sæng og hugsa með mér að dagurinn á morgun verður betri wrrrupm!

þriðjudagur, nóvember 04, 2008

Í gær var ég búin að elda þvílíkan kreppurétt...

skar niður allskyns grænmeti úr ísskápnum, saxaði hvítlauk og hellti olíu yfir og ákvað síðan að smella kartöflubátum sem ég átti forsoðna inni í ísskáp. Þeir voru búnir að vera til ansi lengi en ekki komnir á dag. Þessu smellti ég síðan inn í ofn og hugsaði mér gott til glóðarinnar. Ekki leið að löngu þangað til gráðostamygluógeðslykt lagði um allan íbúðina. Kartöflurnar voru þá algjörlega óætar og ég átti svo erfitt með að sætta mig við það og reyndi hvað ég gat að koma niður einhverjum bitum...

þessi réttur fór því beinustu leið í tunnuna og ég benti Andra pent á það að hann og Ára gætu kannski bara fengið sér pylsu á leiðinni heim úr Zeninu en fyrst fór hann í Zen, síðan ég!

þau fengu sér pulsu og böðuðu sig síðan þegar heim var komið og þá benti áran á typpið á pabba sínum og sagði pulsa! eða punsa á hennar máli (hún þekkir náttúrulega ekki bjúga-nei segi svona!)

ég þurfti síðan að borða dáldið annað...

föstudagur, október 31, 2008

Við mæðgur áttum saman góðan kósýdag heima vegna starfsdags í leikskólanum...

Við höfðum það afar huggó saman og gerðum margt skemmtilegt, Ára bjó til marga kaffibolla fyrir mömmu sína þrátt fyrir að hún drekki harla sjaldan kaffi en hún veit ekkert skemmtilegra en að standa við kaffikönnuna okkar og "búa" til kaffi og "setja" í litlu bollana. Hofðum líka á Sveppa sem er vinsælasta sjónvarpsefnið þessa dagana.

Síðan fórum við í dótabúð en það er algjört uppáhalds þó svo að ekkert sé keypt, bara að hlaupa um og leika með flotta eldhúsið sem er til og skoða allt dótið. Við keyptum líka lítið borð og stóla í herbergið hennar þannig að hún geti setið og dundað sér.

Í hádeginu var borinn fiskur á borð og síðan lögðum við okkur á annan klukkutíma, heimsóttum Báru okkar og Týslu og náðum svo í pabbaling í vinnuna og fengum okkur vöfflu og kakó á Mokka. Enduðum síðan daginn á mat í Geisla. Svona daga elskar Áran, sér í lagi eftir að hún byrjaði á leikskólanum - því á svona dögum fær hún að hafa dudduna, fær appelsínusafa að drekka og óskipta athygli einnar manneskju:)

Og núna er bara heil helgi af þannig knúsi og huggulegheitum en planið er ekkert sem er stundum gott nema reyndar kjötsúpuboð hjá afa á sun og danssýning með Möggu og Síu...

Smá svona hvað að gera blogg en þau blogg eru alveg ágæt svona endrum og eins.

miðvikudagur, október 29, 2008

Ég er búin að vera með nagandi samviskubit síðan í gær...

við ákváðum að prófa að láta Áru litlu vera til fimm á leikskólanum þannig að Andri gæti kippt henni með um leið og hann fer heim. Guð minn góður hvað þetta voru stór mistök! Hún var ein eftir og með ekka takk fyrir þegar hann kom að sækja hana, hélt örugglega að við værum búin að skilja alveg við hana! Hér eftir verður barnið ekki sótt mínútu seinna en fjögur - hvaða ráðum sem þarf að beita til þess...(erum bara á einum bíl og barnið vestur í bæ og ég hér í hverfinu og þau mæta hálf níu níu og ég átta, smá púsl en með góðri hjálp og þremur bílstólum mun það bjargast!)

einhvern tímann átti það að vera vandamál að vera á Polo og með barn (sem reyndist síðan argasta þvæla), nú er það vandmál að vera bara á einum Polo en ef að strætókerfið hérna væri ögn skárra myndi það einfalda mikið en ég get auðvitað tekið strætó til að ná í hana en það tekur bara svo helvíti langan tíma...

ég veit að þetta er lúxusvandamál miðað við margt sem aðrir kljást við en það er ágætt að vera bara með lúxusvandamál eins og staðan í þjóðfélaginu er núna

framundan eru smá hard core tímar í vinnunni, námsmat og allt sem því fylgir, fyrirlögn prófa og yfirferð og leiðarbókaskoðun og möppur og meira og meira og meira

svei mér þá ef ég er ekki bara aðeins farin að hlakka til jólanna og ég hvet ykkur til að vera frumleg í gjöfum - ég er t.d. í allskyns tilraunastarfsemi!