sunnudagur, apríl 01, 2012

Ég hef ákveðið að skora aðeins á sjálfa mig, mér finnst alltaf gaman að taka áskorunum og vinna að einhverjum skemmtilegum markmiðum og vegna áhrifa frá henni Agnesi sem er vinkona hennar Láru ætla ég að blogga daglega í apríl mánuði!

Ég og Agnes þekkjumst nú ekki ýkja mikið nema fyrir tilstilli hennar Láru en við hittumst iðulega í afmælum hjá henni og síðan hef ég lesið skrif hennar í dágóðan tíma. Fyrst á barnalandinu og núna á blogginu hennar þar sem hún hefur ákveðið að setja sér markmið mánaðarlega þetta árið. Agnes er eitthvað svo skemmtilega léttur og leikandi penni og skrifar bara svona um allt og ekkert sem mér finnst gaman að lesa. Í mars mánuði setti hún sér markmið að blogga daglega og mér fannst það alveg frábærlega sniðug hugmynd og ætla stela henni. Febrúar markmið hennar var að sleppa sykri sem mér finnst hins vegar ekki jafn spennandi markmið og mun því geyma í óákveðinn tíma:)

Þetta verður spennandi sérstaklega í ljósi þess að ég hef alltaf passað mig að þetta blogg mitt sé ekki einhver kvöð og ég sé knúin til þess að skrifa alltaf. Ég hef meira svona skrifað þegar mér detttur eitthvað í hug eða er í stuði - sem er auðvitað alls ekki alltaf. En nú reynir á, að vera í stuði allan apríl - það verður stuð!