mánudagur, apríl 02, 2012

Happy mornings!

Ég leyfi Áru stundum að mæta seinna á mánudagsmorgnum. Það eru náttúrulega viss forréttindi að vera í fæðingarorlofi og hafa allan heimsins tíma og þurfa ekki að vera á hlaupum. Andri vill skapa svona "happy mornings stemningu" en hún felur samt oft í sér að hann mætir of seint sem er auðvitað alls ekki nógu gott. Ég held samt að morgnarnir hjá okkur séu bara nokkuð hamingjuríkir. Við erum öll frekar morgunglöð og eigum auðvelt með að vakna, fyrir utan Magdalenu sem þarf soldið að jafna sig svo hún mun eflaust ekki eiga auðvelt með að setja sig inn í happy mornings prógrammið en sjáum hvað tíminn leiðir í ljós.

 
Í morgun leyfði ég Ágústu Rut að mæta seinna, þá röltum við bara af stað rétt fyrir hálf tíu því ég mæti í kerrupúl kl. tíu. Hún vaknaði heldur snemma miðað við venjulega eða um sjöleytið og var hálf þreytt svo ég bauð henni í smá kúr með mér og M. Sem gerði það að verkum að við sofnuðum allar aftur til 8:40. Nú voru góð ráð dýr, allar þurftu að borða og fara í föt á núll einni svo ég myndi ná púlinu mínu. Að þessu sinni var hamingjan og gleðin í fyrirrúmi og Áran megahress og allt gekk eins og smurt og við hlupum saman út á leikskóla. Ég held að birtan og frábæra veðrið sem einkenndi daginn hafi haft mikið að segja þennan hamingjuríka morgun sem teygði sig síðan í vera bara ansi hamingjuríkur dagur - áfram birtan og góða veðrið!