sunnudagur, apríl 01, 2012

Magdalena 3 mánaða!


Fór í tvær sprautur og mælingar og heldur sinni frönsku kúrfu og mælist nú 5310 gr. og 59 cm. Óskaplega svipað og móðir hennar mældist á sama aldri. Við erum að tala um eina lágvaxna hérna:)


Hér erum við hins vegar á leiðinni í passamyndatöku - við mæðgur ætlum nefnilega að fylgja Sóley og Óla heim til Kaupmanahafnar í lok apríl!


Það er svo merkilegt hvað gerist mikið við þriggja mánaða aldurinn. Mér fannst án gríns að Magdalena hefði breyst á einum degi úr því að vera ungabarn í hálfgerðan krakka. Á þessum tímapunkti byrja þau að vaka meira og veita umhverfi sínu svo miklu meiri athygli og þar spilar stóra systir heldur betur stóra rullu, það er náttúrulega allt skemmtilegt sem hún gerir en mamman þykir líka kostuleg og fær iðulega bros við einhverjum fáránlegum hljóðum, grettum og geiflum. Svo ég tali nú ekki um pabbann sem er náttúrulega mikill sprelligosi.

Við getum ekki kvartað undan svefnleysi þessa þrjá mánuði og þetta hefur bara rúllað ótrúlega vel. Svefntíminn færist enn framar og virkilega góð kvöld þegar ég fer inn með M og Andri Á og við hittumst síðan á ganginum rúmlega níu og gefum "high five" og kvöldið er okkar. Slíkum kvöldum hefur fjölgað undan farið en ekkert heilagt í þessu. Í kvöld tók hún t.d. vökumaraþon og vakti eiginlega frá hálf fimm til að vera níu og tók klassískt 40 mín rumsk en Andri tæklaði þetta vel og kom henni aftur í ró.

Magaæfingum fer fjölgandi og styrkurinn að koma enda þýðir ekkert annað þegar maður er að æfa ungbarnasund en henni var þrælað í sund á sjálfan sprautudaginn og dýft í kaf. Hún var nú heldur lítil í sér eftir það og þurfti nauðsynlega að fara á bakkann og fá sér góðan huggunarsopa:)


Þessir fyrstu þrír mánuðir eru einhvern veginn svona aðlögunartími með nýjum einstaklingi þar sem maður lærir inn á þarfir hans og karakter. Magdalena þarf t.d alltaf að jafna sig töluvert þegar hún vaknar, sama hvaða tíma dags það  er, gott að vita það núna:) Það verður því örugglega hressandi að vekja hana í skólann seinna meir! Hún drekkur líka oft þangað til hún er orðin yfirspennt og þyrfti að losa loft og móðgast þá alveg þvílíkt svo maður þarf að vera fljótur að skutla snuðinu upp í hana. Hún tekur alveg stundum extra mikinn pirring, enginn fastur tími á því en oftast svona seinni partinn, ég geri ráð fyrir að þetta séu einhverjar magapílur og þá þarf alveg stundum að taka færeyska hringdansinn en það varir yfirleitt stutt enda miklir dansarar á heimilinu:) Fyrri hluta dagsins er hún yfirleitt algjört sparibarn og getur setið lengi í ömmustólnum og fylgst með mér í heimilisstörfunum nú eða að kenna stærðfræði en hún passar sig alltaf á því að vera vakandi á þeim tímum.


En umfram allt er hún auðvitað minnsta músin á heimilinu og hlýtur ómælda athygli frá öðrum fjölskyldumeðlimum og ÁRA segir okkur oft og mörgum sinnum að M sé sætasta krútt í heimi:) Sem þær eru auðvitað báðar tvær ásamt AFO!