þriðjudagur, apríl 24, 2012


Gestabloggari nr. 3
Eftir listilega takta fyrri gestabloggara og hnyttni í hverju orði fékk gestabloggari nr. 3 smá sviðsskrekk og varð svo lítill í sér að það tók hann þrjú kvöld að peppa sig upp í blogg.
Eftir æðislegar stelpustundir var komið að því að kveðja seinni íþróttasleggjuna. Rexið kom reyndar með litlumömmunum í ungbarnasund á sunnudagsmorgninum en lét það vera að bæta sér í "Hjólin á strætó"-kórinn og tók bara ME time með powersturtu og túrbógufu á meðan hinar tvær  hoppuðu og híuðu yfir "afrekum" sundkappanna. Eftir sundið varð Skyndilindan að fylla á hittingakvótann enda bara algjört lágmark að hafa fimm plön á dag, svo að þær mæðgur skunduðu út í Tårnby að hitta Helgu og Per.
Um kvöldið eldaði Kobbi fyrir konurnar sínar tvær og var svo stefnan sett á rauðvín, súkkulaði og góða bíómynd. Möllumúsinni fannst það vera svona heldur mikið splæs og ákvað að ryðja upp tönn númer tvö, með tilheyrandi pirringi og óværð. Eftir nokkra færeyska hringdansa og aðrar redderingar komst hún loksins í ró og tilraun tvö á vídjókvöld hófst. Passlega fimm mínútum eftir að myndinni var hleypt í gang vaknaði Mammoni-inn á heimilinu og krafðist þess að fá túttu ekki seinna en strax, þannig að Sóley stimplaði sig inn á næturvakt. Aðrir heimilismenn fylgdu í kjölfarið.
Á mánudeginum skveruðu mömmurnar sér í bæinn og voru ekki lengi að sjoppa það sem hugurinn girntist, þrátt fyrir að vera með tvö undir eins árs á kantinum. Þau eru nú algjör ljós þetta litla par.
Þrátt fyrir bæjarferðina voru Zero-dagar virtir og bara ítrustu nauðsynjar keyptar.
Um kvöldið voru börnin samvinnuþýðari svo að þrenningin gat tekið maraþonspjall um lífið, tilveruna, innanhúshönnun, barnauppeldi og fleira.
Þriðjudagurinn var kósýdagur, veðrið var yndislegt og mömmurnar héldu sig bara á Amager. Óli tók smá gestalæti fyrir Lindu, var alltaf mættur á kantinn að sníkja mat hjá henni en fussaði og frussaði þegar Sóley bauð honum eitthvað. Hann tók svo bara puttadansinn og rassadillið þess á milli með svo miklum tilþrifum að Linda var farin að gráta úr hlátri. Lena hin síkáta kunni líka að meta fíflalætin og hló og hló.
Eftir hádegi ákvað Skyndilindan að krydda aðeins tilveruna og maxaði sig í stórum Latté á Riccos. Seinnipartinn var svo aftur hóað í góðan kvennahóp og það var aldeilis kátt í höllinni þegar fimm konur og fjögur börn voru saman komin í 20 fm stofunni.
Þetta er búin að vera frábær ferð - Magdalena algjört fyrirmyndarbarn og ekki mikið fyrir henni haft. Þrátt fyrir það er kominn smá heimferðarsperringur í þær mæðgur og þær sakna óneitanlega klónanna sinna á klakanum.

1 ummæli:

Linda sagði...

Hér virka kommenta dálkar loksins almennilega svo ekki hika við að drita inn kommenti:)